Umhverfismennt

Strax við upphaf skólans í ágúst 2003 var mörkuð sú stefna að umhverfismennt mundi skipa stóran sess í skólanámskrá skólans og strax  var skipuð umhverfisnefnd sem leiddi starfið frá upphafi. Nefndin sá um að undirbúa og kynna grænfánaverkefnið (sjá síðu hér til hliðar) auk þess að koma á framfæri upplýsingum til annarra kennara.
Árið 2005 var sótt um að Naustatjörn yrði skóli á grænni grein og fór skólinn formlega á grænu greinina í september 2005. Grænfáninn var afhentur í fyrsta sinn árið 2007 og hefur skólinn fengið fánann eftir það árin 2009, 2011, 2013, 2015 og 2017.

Í hópastarfi ár hvert er unnið markvisst með umhverfismennt með börnunum. þau læra um fjöllin í kringum okkur, þau læra um veðurfar, um plöntur og dýralíf í ævintýraferðum og síðast en ekki síst læra þau að spara vatn, sápu og pappír inn á snyrtingum  auk þess sem þau læra að endurvinna og endurnýta ýmis konar efnivið í listsköpun og leik.

Kennsla um náttúru og umhverfi í Naustatjörn
„Frá fyrstu stundu beita börn ýmsum aðferðum við að reyna að skilja umhverfi sitt. Börn kanna og ræða samhengi fyrirbæra. Ýta þarf undir forvitni, ígrundun og vangaveltur barna og hvetja þau til að spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. Mikilvægt er að kenna börnum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta“.
„Í leikskóla á að skapa aðstæður svo börn fái tækifæri til að vinna með og velta vöngum yfir:

 • Umgengni sinni og virðingu fyrir náttúrulegu og manngerðu umhverfi
 •  Hvernig vitspor þeirra og nærsamfélags geta stuðlað að sjálfbærri þróun
 •  Hringrásum og fyrirbærum í náttúrunni
 •  Margvíslegum auðlindum náttúrunnar
 •  Nýtingu náttúrunnar
 •  Upplýsingamiðlun, framsetningu og gildi upplýsinga
 •  Stærðfræðilegum viðfangsefnum, s.s. tölum, táknum og mynstrum
 •  Lífverum í umhverfinu og lífsháttum þeirra
 •      Eðli ýmissa krafta og birtingarmyndum þeirra í umhverfinu
 •  Eiginleikum ýmissa efna og hluta
 •  Möguleikum og takmörkunum tækninnar
 •  Rými, fjarlægðum og áttum “

Leiðir Naustatjarnar varðandi náttúru og umhverfi eru m.a. þessar:
Lögð er áhersla á að börnin gangi vel um og læri að meta og þekkja umhverfi sitt. Fjölbreyttar vettvangsferðir eru reglulega farnar út í náttúruna og umhverfi. Farið er reglulega með hóp barna í skipulagðar ferðir og eru börnin undirbúin fyrir ferðirnar. Þegar heim er komið er unnið úr upplifun þeirra og þeim efnivið sem þau hafa safnað í ferðunum. Hlustað er eftir áhuga barnanna, spurningum þeirra svarað og þau hvött til frekari rannsókna og tilrauna. Einnig eru til tæki sem hægt er að nota í tilrauna – og ræktunarskyni því börnin rækta bæði úti og inni, m.a. blóm, fræ, kjarna og kartöflur. Lesnar eru bækur, ljóð og sungið um náttúruna til að fræðast og fá tilfinningu fyrir henni. Unnið er útfrá veðurfari og árstíðum, börnin læra að endurnýta margvíslegan efnivið og nota í verkefnum og leik, flokka úrgang og fara með í endurvinnslustöðvar.

Markmið Naustatjarnar með umhverfismennt eru:

 •  Að njóta náttúrunnar árið um kring og nýta hana sem leiksvæði og efnivið til uppgötvunar, leikja og skapandi starfs
 •  Að kenna börnunum að verða læs á umhverfi sitt og þekkja það
 •  Að flokka úrgang og pappír til endurvinnslu í stað þess að kaupa nýjan efnivið
 •  Að safna lífrænum úrgangi í þar til gerðar safntunnur
 •  Að nota umhverfisvænar hreinsivörur við ræstingu skólans
 •  Að rækta grænmeti og plöntur í garðinum
 •  Að spara raforku og vatn eins og hægt er

Umhverfissáttmáli Naustatjarnar:

 •  Við lærum að þekkja nánasta umhverfi okkar, náttúruna og samfélagið og að ganga um það af virðingu
 •  Við endurnýtum það sem hægt er
 •  Við flokkum þann úrgang sem fer í endurvinnslu
 •  Við spörum orku og vatn

 

Leiðir að Umhverfissáttmála Naustatjarnar eru: 

 •  Að efla umhverfisvitund nemenda með fræðslu um umhverfi sitt og náttúru, með góðu fordæmi og verkefnum
 •  Að nýta efni sem fellur til, m.a. til sköpunar, rannsókna og tilrauna
 •  Að flokka lífrænan úrgang til moltugerðar. Pappír, pappi, fernur, gler, málmar, plastumbúðir, kerti og rafhlöður er flokkað og farið með í endurvinnslu
 •  Að gæta þess að slökkt sé á rafmagnstækjum og ljósum þegar þau eru ekki í notkun og passa að vatn renni ekki að óþörfu
 •  Að nemendur læri um mikilvægi og gagnsemi trjá og annars gróðurs til að viðhalda hreinu andrúmslofti á jörðinni (ljóstillífun/hringrásin)

Umhverfisnefnd Naustatjarnar fyrir starfsárið 2018- 2019 skipa:
Fyrir hönd stjórnenda: Aðalheiður Hreiðarsdóttir aðstoðarskólastjóri og sérkennslustjóri.
Fyrir hönd Fífilbrekku:  Guðni Harðarson leikskólakennari.
Fyrir hönd Sunnuhvols: Sigríður Hinriksdóttir leikskólakennari.
Fyrir hönd Tjarnarhóls: Sigurbjörg F. Héðinsdóttir leikskólakennari
Fyrir hönd Huldusteins: Auður Björnsdóttir leikskólaliði.
Fyrir hönd Vökuvalla: Alda Ómarsdóttir leikskólakennari.
Fyrir hönd Búðargils: Þórhalla Friðriksdóttir leikskólakennari og verkefnisstjóri.
Fyrir hönd nemenda: Börn úr árgangi 2013.
Fyrir hönd foreldra: