Barnafundir

Barnafundir eru frábær leið til að hjálpa börnum að læra um samstarf, að leggja hugmyndir til málanna, að leita lausna og að sammælast.

Á barnafundum hittast börn reglulega til að hjálpa hvert öðru, læra samskipti, leita lausna og efla/þjálfa dómgreind sína og þekkingu. Mikilvægasti tilgangur barna- eða bekkjafunda er að gefa börnum þá tilfinningu að þau finni að þau tilheyri hópi. Börn frá 3½ árs aldri geta tekið þátt í barnafundum og yngri börnin læra af þeim eldri um leið og þau eldri læra að taka tillit til þeirra yngri. Fjögurra ára gömul börn hafa mikla ánægju af lausnaleit þegar þau hafa fengið kennslu og þjálfun í hvernig barnafundirnir ganga fyrir sig. Börn á aldrinum tveggja til þriggja ára geta einnig tekið þátt í barnafundum þar sem kennarinn er fyrirmyndin í stað eldri barna. Kennarinn sér þá um flestar tillögur og hjálpar börnunum að velja á milli tillagna. Fundir með svo ungum börnum snúast að mestu um hvað börnin ætla að gera á ákveðnum stundum í stað þess að velta upp hlutum eða leita lausna.

Á barnafundum setjast börnin í hring. Fundirnir byggjast upp á fjórum stoðum, gott er að hafa hverja stoð fyrir sig á mismunandi lituðum pappír, þá er hvert verkefni fyrir sig sýnilegt fyrir barnahópinn og auðveldar þeim að einbeita sér að hverju verkefni fyrir sig.

Stoðirnar fjórar eru eftirfarandi

  1. Að veita hvatningu og þakklæti.

Yngri börn átta sig oft ekki á hvað hvatning og þakklæti er en segja t.d. í þess stað „mamma mín er best“, þau segja það sem er þeim efst í huga. Hlutverk kennarans er að þakka fyrir athugasemdina, brosa og sýna að hann meti framlag barnanna. Kennarinn getur líka spurt opinna spurninga til að hjálpa börnunum að veita hvatningu eða þakklæti.

  1. Að styrkja börnin í að hjálpa hvert öðru.

Börnin fá tækifæri til að biðja um aðstoð ef eitthvað hvílir á þeim, þau segja frá því sem þau eru að hugsa um og fá hugmyndir frá hinum börnunum.

  1. Að leysa vandamál sem hafa áhrif á hópinn.

Ung börn eru oft mjög hugmyndarík þegar leitað er lausna á málum sem snerta þau. Þetta geta verið einföld mál eins og umgengni við bækur. Kennarinn getur líka spurt börnin hvort þau upplifi ákveðna hluti sem vandamál sem þarf að ræða og finna lausn á og eru allar hugmyndir skrifaðar niður.

  1. Að skipuleggja áætlanir fyrir framtíðina.

Börnin eða kennararnir koma með hugmyndir sem hægt er að gera, þetta getur verið varðandi vettvangsferð, hvað gert verður í samverustund eða í útiveru. Síðan er tekin sameiginleg ákvörðun um hvað gert verður. Einnig er hægt að ákveða reglur sem gilda um ákveðna þætti í sameiningu en börn vilja mun frekar fylgja reglum sem þau hafa tekið þátt í að semja.

Þættir sem hafa ber í huga varðandi skipulag barnafunda: tímasetning, tímalengd, fjöldi funda, – nota fasta þætti s.s. lag, þulu, hreyfingu, hljóðfæri – hafa kosningar á milli tveggja eða þriggja hugmynda ef þær snerta allan hópinn – skrifa fundargerð – nota málstein. Þegar mál er lagt upp – spurt hvort einhverjir hafi lausn á málinu – börn lyfta upp hendi og tala þegar þau fá orðið.

Hugmynd – barn augnabliksins eða barn vikunnar. Í stað þess að allir fái hrós er hægt að hafa barn augnabliksins, þá skrifar kennarinn nafn barnsins á stórt blað og öll hin börnin gefa því barni hvatningu eða þakklæti.

Smellið einu sinni á myndina til að stækka hana.

Dagskrá barnafunda