Hljóm 2 – upplýsingar til foreldra

Á haustin er HLJÓM-2 lagt fyrir elstu börnin, en það er íslenskt aldursbundið próftæki (skimun) í leikjaformi sem kannar hljóðkerfisvitund (hljóð- og málvitund) elstu barnanna í leikskólanum. HLJÓM-2 byggist á sjö mismunandi verkefnum sem lögð eru fyrir elsta árgang barna í leikskólum að hausti. Einungis fagfólki leikskóla, með tilskilin réttindi, er heimilt að leggja prófið fyrir. Niðurstöðurnar eru marktækar vísbendingar um hvaða börn eru í áhættu fyrir síðari lestrarörðugleika og mikilvægar til þess að hægt sé að vinna markvisst með þá þætti sem hugsanlega liggja ekki vel fyrir börnunum, þennan síðasta vetur þeirra í leikskólanum. Þættirnir (leikirnir) sem lagðir eru fyrir tengjast: Rími, samstöfum, hljóðgreiningu, samsettum orðum, margræðum orðum, orðhlutaeyðingu og hljóðtengingu. Fyrirlögnin tekur u.þ.b. 20-30 mínútur, með hvert barn. Börnin koma út í góðri færni, meðalfærni, slakri færni eða mjög slakri færni. Þau börn sem koma út í slakri færnin eða mjög slakri færni fara í málörvunar hópa hjá sérkennslustjóra og síðan erun þau prófuð aftur í febrúar.
Nú erum við búin að leggja Hljóm-2 fyrir öll börn fædd 2013 í leikskólanum og komu 9 börn af 30 út í slakri eða mjög slakri færni. Þetta finnst okkur of mikið og viljum taka höndum saman með ykkur foreldrum og bæta úr þessu.
Það er mjög mikilvægt að byrja sem fyrst að efla hljóðkerfisvitund hjá leikskólabörnum og hér eru þeir þættir sem gott er að æfa og lagðir eru fyrir í Hljómi-2 prófinu.

Rím: Leika með rímsögur og þulur. Einnig má leika með bullrím. Dæmi; Hvað rímar við bíll? Svar í bullrími; fíll, skíll, kíll o.s.frv. Barnið er síðan spurt hvort skíll og kíll séu alvöru orð! Að lokum gerir barnið greinarmun á alvöru orðum og bull orðum. Hvað er uppi á höfði þínu sem rímar við sár? Ari er smár en Óli er..? klár, hár o.s.frv.

Samstöfur: Barnið klappar takt/atkvæði í orðum, hlutum, nöfnum, setningum, vísum eða ljóðum. Dæmi; Barnið klappar takt/atkvæði í orðum eins og Jónas – Jó-nas, epli – epl-i, borð – borð, rennibraut – renn-i-braut.

Samsett orð: Barnið heyrir tvö orð og á að setja saman í eitt.
Dæmi; Jól og tré verður Jólatré, vörur og bíll verður vörubíll. Einnig er hægt að gefa barni fyrri hluta orðs og fá það til að botna, dæmi; fót….??? Fótbolti, snjó….?? Snjóhús/bolti

Hljóðgreining: Þar á barnið að hlusta eftir ákveðnum hljóðum í orðum.
Dæmi; Heyrist a í orðinu baaað – já
Heyrist a í orðinu gooott – nei
Athugið að tala um hljóð, ekki bókstafi. Ekki spyrja heyrist bé í bók, heldur heyrist bbbb í bók.

Margræð orð: Tvær af þessum myndum nota sama orðið þótt þær tákni mismunandi hluti.

Tré
Jólatré Herðatré

Orðhlutaeyðing: Leika sér að taka samsett orð í sundur. Hvaða orð verður eftir ef þú tekur jól burt af jólatré – tré. Hvaða orð verður eftir ef þú tekur sund burt af sundbolur – bolur

Hljóðtenging:Í þættinum hljóðtenging á barnið að greina hljóð að í orði. Í þessum þætti á það að hljóða saman tvö til þrjú hljóð í orð. Dæmi: /a/-/r/-/i/ = Ari.
Athugið að tala um hljóð, ekki bókstafi.

Kveðja Adda sérkennslustjóri.