Baráttudagur gegn einelti / Dagur Jákvæðs aga

Sumir af þeim skólum sem vinna með Jákvæðan aga í starfi með börnunum hafa sammælst um að Baráttudagur gegn einelti sem alltaf er haldinn 8. nóvember verði líka Dagur Jákvæðs aga. Jafnframt hefur verið ákveðið að framvegis verði alltaf vinavika í sömu viku og 8. nóvember í Naustatjörn.

Það sem við ætlum að gera í dag er að allar deildir halda barnafundi þar sem rætt er um mikilvægi vináttu, samkenndar og að vera góð hvert við annað. Jafnframt eru börnin frædd um að þetta sé Dagur Jákvæðs aga. Þau munu gera vinahjarta auk þess sem þau eldri verða spurð hvað er að vera vinur eða hvað gera vinir.
Vinastund verður haldin þar sem börnin nudda hvert annað (hendur/fætur) með kókosolíu eða kremi, þetta á að vera notaleg og róleg stund.
Vinalög verða sungin og svo er hugmyndin að hafa vinahring úti í garði á föstudag þar sem vinalög verða sungin í samvinnu við starfsmann Tónlistarskólans sem kemur vikulega til okkar.

Til gamans má geta þess að þrjár ungar stúlkur tóku daginn í dag mjög alvarlega, þær gengu saman um garðinn úti og sögðust vera að leita að einhverjum sem ætti ekki vin, því þá ætluðu þær að taka það barn upp á sína arma. Jafnframt sögðust þær ætla að passa að enginn væri að stríða. Það virkar svo sannalega að ræða við börnin um vináttuna og mikilvægi þess að vera góð hvert við annað.